Skotsvæði -Tölfræði verkefni

Hús byggt og skotið er innan frá.
Séð yfir skotsvæði nemenda.

Nemendum finnst gaman að skapa í Minecraft, gefum þeim frelsi til að gera sitt eigið skotsvæði. Í verkefninu munu nemendur vinna með tölfræðihugtök sem koma fyrir á mið og elsta stigi grunnskóla.

Verkefnið gengur út á það að nemendur búa til vegg með gefnum fjölda lita, til dæmis fjórir litir (gulur, rauður, grænn og blár) og línu, í góðri fjarlægð frá veggnum, sem segir til um hvar bogamaðurinn á að standa þegar skotið er í vegginn.

Hugmynd til að stækka verkefnið: Nemendur geta gefið hverjum lit tölu eða t.d. skóstærð, það gefur verkefninu miðgildi og meðaltal. 

Gott er að kennari gefi upp hversu margir kubbar og litir eigi að vera í veggnum, í sýnidæminu hér fyrir neðan var gefið upp að fjöldi lita ætti að vera fjórir og fjöldi kubba 60. Kennari þarf einnig að ákveða hversu oft er skotið með boganum. Fjarlægð og útlit á skotsvæðinu á að vera algjörlega gert með hugmyndaflugi nemenda. Gaman er að láta nemendur skapa eins flott skotvæði og þau geta. Verkefnið getur verið einstaklings- eða hópverkefni (þó ekki fleiri en þrír í hóp). Hentar mjög vel fyrir tvo nemendur saman í hóp, nemendur vinna með tvær spjaldtölvur og eru í sömu veröldinni og skrá báðir í sína tíðnitöflu.

Það sem þarf að gera í verkefninu:

  • Búa til vegg eða flöt úr mismunandi lituðum kubbum
  • Hafðu mismunandi fjölda á hverjum lit
  • Gerðu línu í jörðina sem segir til um hvar leikmaður eigi að standa þegar skotið er að veggnum
  • Náðu í boga svo hægt sé að skjóta í vegginn

Áður en nemandi skýtur þarf hann að reikna hverjar séu líkurnar á að hitta í hvern lit. Nemendur bera svo saman líkurnar og hversu oft þau hittu í hvern lit í raun og veru.

Nemendur þurfa að:

  • Skrá hvert skot í tíðnitöflu
  • Reikna út prósentu hversu oft var hitt í hvern lit (hlutfallstíðni)
  • Gera grein fyrir tíðasta gildi
  • Búa til myndrit með niðurstöðum

Nemendur eiga að standa við línuna og skjóta með boga 10x, 20x, 30x eða oftar í vegginn. Skrá niður hversu oft þau hittu í hvern lit (athugið hvaða lit er hitt í þegar fimm skot hafa verið skotin, örvarnar hverfa eftir skamma stund).

Hérna sérðu stutta mynd af nemanda á skotsvæðinu sínu.

 

Nemandi hefur skotið 10 örvum í vegginn
10 örvar í veggnum